1. Heiti, heimili og hlutverk

1.1   Félagið heitir F.L.O.G. – Félag lífeinda- og geislafræðinema HÍ.

1.2   Heimili FLOG og varnarþing er Stapi, Hringbraut 31, 101 Reykjavík.

1.3   Tilgangur félagsins er að:

  • Gæta hagsmuna félagsmanna.
  • Auka tengsl félagsmanna og viðhalda góðu félagslífi.
  • Stuðla að góðri menntun og aðstöðu félagsmanna.
  • Stuðla að auknum tengslum félagsmanna við atvinnulífið.
  • Halda úti heimasíðu með upplýsingum um starfsemi félagsins.

2. Félagsmenn og félagsgjöld

2.1   Félagsmenn eru allir þeir sem nema geisla- eða lífeindafræði við H.Í. Allir félagsmenn eru kjörgengir og hafa tillögu og atkvæðisrétt.

2.2   Félagsgjöld eru engin, en stjórn FLOG er heimilt að gefa út og selja félagsskírteini til fjáröflunar. Handhafar skírteina fá forgang í vísindaferðir og afslátt á allar skemmtanir vetrarins ásamt annars konar fríðindum.

2.3 Utanaðkomandi einstaklingar geta sótt um aðild að FLOG og fengið að taka þátt í félagsstörfum gegn því að starfandi stjórn samþykkir umsókn þeirra.

2.3.1  Utanaðkomandi einstaklingar hafa tillögu- og atkvæðisrétt en eru ekki kjörgengir.

3. Stjórn

3.1   Stjórn félagsins skal skipuð 8 einstaklingum: forseta, varaforseta, gjaldkera og ritara, upplýsingafulltrúa lífeindafræði, upplýsingafulltrúa geislafræði, nýnemafulltrúa lífeindafræði og nýnemafulltrúa geislafræði.

3.2   Forseti er fulltrúi félagsins út á við. Hann boðar á fundi félagsins og stýrir þeim. Forseti situr í námsbrautarstjórn sinnar námsbrautar.

3.3  Varaforseti sér um öll skemmtanahöld, vísindaferðir, árshátíð og þær skemmtanir sem félagið heldur. Hann nýtur hjálpar frá stjórnarmeðlimum, en einnig hefur hann þess kost að skipa árshátíðarnefnd, þá með leyfi forseta.

3.3.1 Ef varaforseti er ekki í sömu námsbraut og forseti þá situr hann í námsbrautarstjórn sinnar námsbrautar.

3.4   Gjaldkera annast rekstrarbókhald félagsins og skal skila ársreikningi á aðalfundi. Hann hefur umsjón með fjáröflunarstarfsemi félagsins.

3.5   Ritari skráir fundargerðir stjórnarfunda og aðalfundar. Hann skal halda annál yfir það sem gert er á vegum félagsins. Hann sér um heimasíðu félagsins.

3.6   Upplýsingafulltrúar lífeindafræði og geislafræði sjá um kynningarstörf fyrir sína námsbraut, hvort sem það er innan eða utan háskólans. Þeir sitja í námsbrautarstjórn sinnar námsbrautar. Upplýsingafulltrúar skulu hafa lokið að minnsta kosti tveim misserum í lífeinda- eða geislafræði. Einn upplýsingafulltrúi er kosinn úr hvorri námsbrautinni en félagsmenn hafa aðeins atkvæðisrétt til að kjósa upplýsingafulltrúa úr sinni námsbraut.

3.7   Nýnemafulltrúar sjá um að kynna starfsemi FLOG og atburði fyrir nýnemum. Þeir skulu einnig sjá til þess að nýnemar myndi innbyrðis kjarna bæði í náminu og félagslífinu. Þeir eru kosnir á nýnemakynningu á haustin.

3.8 Til viðbótar við stjórnina starfar ljósmyndari FLOG. Hann mætir á alla viðburði FLOG og tekur myndir fyrir félagið. Hann sér um snapchat og instagram FLOG. Ef ljósmyndarinn missir af fleiri en tveimur atburðum FLOG þá missir hann stöðuna sína sjálfkrafa og þarf að endurgreiða félaginu fyrir F.L.O.G. kortið sitt.

3.9   Stjórnarmeðlimir og ljósmyndari FLOG eru undanskildir félagsgjöldum og öðrum gjöldum vegna uppákoma félagsins, svo lengi sem fjárhagur leyfir.

3.10   Kosið skal í allar þessar stöður, nema nýnemafulltrúa, á aðalfundi sem haldinn er einu sinni á skólaári.

3.10.1   Ef engin framboð berast í stakar stjórnarstöður má taka við framboði eftir aðalfund og auglýsa það fyrir félagsmönnum. Ef einhver mótmæli koma fram eða aðrir félagsmenn bjóða sig einnig fram skal halda auka aðalfund næsta haust þar sem málið verður leyst. Ef engin mótmæli eða mótframboð koma fram þá telst frambjóðandinn hafa hlotið kosningu.

4. Aðalfundur

4.1   Aðalfundur skal haldinn einu sinni á skólaári. Hann skal vera haldinn í fyrsta lagi tveimur vikum fyrir síðasta kennsludag á vormisseri.

4.1.1 Leyfilegt er að halda auka aðalfund í upphafi haustmisseris. Tilgangur auka aðalfundar er að kjósa í lausar stjórnarstöður.

4.2   Aðalfund skal boða með minnst viku fyrirvara og kynna þá þau embætti sem kosið verður um.

4.3   Tillögur sem bera á upp á aðalfundi skulu berast skriflega til stjórnar með minnst viku fyrirvara. Stjórn kynnir þær fyrir félagsmönnum áður en að aðalfundi kemur.

4.4 Dagskrá aðalfundar

1.      Skýrsla stjórnar

2.      Endurskoðaðir reikningar lagðir fram

3.      Lagabreytingar

4.      Kosningar í stjórn og nefndir

5.      Önnur mál.

4.5   Ný stjórn tekur formlega við stjórntaumnum að aðalfundi loknum.

4.5.1   Fráfarandi stjórn skal skilja eftir á bankareikningi sínum að lágmarki 60.000 krónur fyrir nýja stjórn.

5. Aðrir fundir

5.1   Öllum félagsmönnum er frjálst að sitja stjórnarfundi en stjórnarmeðlimir einir hafa tillögu- og atkvæðisrétt.

5.2   Allir stjórnarmeðlimir hafa jafnan atkvæðisrétt á stjórnarfundinum, en standi fjöldi atkvæða á jöfnu ræður atkvæði forseta.

5.3   Stjórnin boðar almenna félagsfundi með minnst þriggja daga fyrirvara.

5.4   Nýnemakynning skal haldin innan við tveimur vikum frá því að skólinn hefst á haustmisseri.

6. Vísindaferðir

6.1   Skráningarferli í vísindaferðir er ákveðið af starfandi stjórn FLOG.

6.2 Vilji meðlimur FLOG afskrá sig úr vísindaferð skuli hann eigi gera það síður en sólahring fyrir vísindaferð. Ef meðlimur FLOG afskráir sig innan við sólahring frá vísindaferðinni mun hann ekki fá tækifæri til að koma með í næstu vísindaferð.

7. Lög

7.1   Tillögum sem og breytingartillögum við þessi lög sem liggja fyrir félagsfund skal dreift fjölrituðum meðal fundarmanna og skal stjórnin sjá um framkvæmd þess.

7.2   Breytingartillögur á lögum félagsins og aðrar tillögur skulu samþykktar á aðalfundi eða á almennum félagsfundi með meira en helmingi greiddra atkvæða.

7.3 Ef minna en helmingur félagsmanna situr félags- eða aðalfundinn þarf ¾ greiddra atkvæða til að tillögu til breytinga á þeim lögum teljist samþykktar.

7.4 Lög þessi gilda frá og með 7.4.2017